Dagur einhverfu er dagur fjölbreytni

Hvað geta þau sem tala ekki, kennt okkur? Hvað sjá þau sem eru hugfangin af smáatriðunum? Hvernig upplifa þau sem hringsnúast lífið? Hvernig miðla þau sem bergmála, til okkar hinna?

Á Degi einhverfunnar beinum við sjónum okkar og athygli að því sem hin einhverfu geta kennt okkur um fjölbreytileika lífsins. Álagið sem er fylgifiskur þess að eiga einhverft barn getur valdið því að við horfum framhjá gjöfunum sem sá einhverfi gefur og ljómanum sem hann varpar í kringum sig. Alltof oft vill umhverfið þvinga alla í sama mót og þau sem passa ekki inn í væntingar um það sem þykir „eðlilegt“ eru jafnvel álitin byrði og ógæfa.

En barninu sem er einhverft fylgir ekki ógæfa heldur gæfa. Það er vissulega öðruvísi, það gengur ekki í takt, það umturnar væntingum um eðlilegan þroska og áreynslulaust uppeldi. Til að geta notið og glaðst yfir slíku barni þurfum við að tengja upp á nýtt og vera opin fyrir hinu óvænta.

Fjölskyldur einhverfra barna á Íslandi standa ekki einar. Það er okkar reynsla að stuðningsnet leikskóla, félagsþjónustu og heilbrigðiskerfis er ómetanlegur samherji einhverfa barnsins og fjölskyldunnar allrar. Þessa þjónustu ber að þakka og meta.

Fyrir kennara, stuðningsfulltrúa og ráðgjafa erum við þakklát. Fyrir samfélag sem metur, hvetur og styður, gefur rými og skapar möguleika, erum við þakklát. Við erum líka þakklát fyrir fræðimenn sem sinna rannsóknum á einhverfu og því sem gagnast einhverfum börnum í námi og leik. Við erum þakklát fyrir áhugasamtök og stuðningsfélög sem halda utan um systkini og aðstandendur.

Þakklátust erum við fyrir drenginn okkar sem minnir okkur á gildi þess sem er öðruvísi og beinir sjónum okkar að leyndardómum lífsins.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 2. apríl 2012.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.